Copy
Skoða póstinn í vafra

Óráðlegt að breyta kosningalögum svo skömmu fyrir kosningar

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á að Evrópuráðið ráðleggi almennt að breyta ekki kosningalöggjöf innan við einu ári fyrir kosningar. Athugasemd þessa efnis hefur verið gerð við nefndina vegna umsagnar sambandsins um frumvarp til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna. 

Þá samþykkti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundi sínum í dag bókun þar sem stjórnin tekur ekki efnislega afstöðu til þeirra breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu en telur varhugavert að samþykkja breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna nú þegar rúmlega tveir mánuðir eru til kosninga.

Nánar

Lítið svigrúm til launahækkana

Það er alltaf mjög vont þegar samningar nást ekki, segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem líst illa á þá stöðu sem upp er komin eftir að grunnskólakennarar felldu nýgerðan kjarasamning með um 69% greiddra atkvæða. Í viðtali við RÚV segir hann m.a. að svigrúm til launalækkana sé lítið og viðbúið sé að nýir samningar taki töluverðan tíma. „Við auðvitað vonumst bara til þess að við náum viðræðum upp að nýju og finnum einhverjar leiðir en það gæti tekið tíma,“ er haft eftir formanninum á vef ríkisútvarpsins. 

Nánar

Vinna hafin að bættri nýliðun kennara

Menntamálaráðuneytið vinnur þessa dagana að því að koma þeim aðgerðum í framkvæmd sem ætlað er, skv. ákvörðun ráðherra, að stemma stigu við nýliðunarvanda kennara og brotthvarfi úr kennarastétt. Skipulag vinnunnar verður með þeim hætti að verkefnastjórn verður falið að skila yfirstjórn aðgerða um menntamál kostnaðargreindum og tímasettum tillögum. Tillögurnar skulu unnar í samstarfi við samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og er gert ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili af sér þann 1. júní nk. 

Verkefnisstjórninni til aðstoðar verða þrír starfshópar; rýnihópur, sem hefur þegar hafið störf, en hlutverk hans er m.a. að rýna tillögur sem liggja fyrir í ráðneytinu og kanna samlegð við tillögur annarra hópa þegar þær liggja fyrir; kostnaðar- og áhættumatshópur sem greinir kostnað, tímasetur tillögur og metur áhættu í tillögum frá rýnihópi og kynningar- og almannatengslahópur sem mun bera ábyrgð á samráði við hagsmunaðila um tillögurnar.

Yfirstjórn aðgerðanna skipar menntamálaráðherra ásamt öðrum fagráðherrum og tekur yfirstjórn endanlegar ákvarðanir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í menntamálum. 

Í verkefnisstjórn sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og háskóla, auk verkefnastjóra. Þá eru fulltrúar sambandsins einnig kostnaðar- og áhættumatshópi og kynningar- og almannatengslahópi.

Nánar

Úthlutuðu samtals 2,8 milljörðum króna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í gær úthlutun á ríflega 2,8 milljörðum króna til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum.

Annars vegar átti í hlut 722 milljóna króna úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2018. Úthlutanir til sveitarfélaga voru 28 talsins og námu samanlagt rúmum 450 milljónum króna.

Hins vegar var svo um tæplega 2,1 milljarðs króna úthlutun að ræða vegna þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018 – 2020. Alls var fjármagni veitt á 71 stað og eina gönguleið, en sérstök áherslu var lögð á vernd náttúru, minjavernd, öryggi og bætta aðstöðu fyrir gesti. 

Nánar

Heimsmarkmiðin stálu senunni á alþjóðlega hamingjudeginum

Hamingja, heilsa og vellíðan með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna var yfirskrift málþings sem haldið var í tilefni af alþjóðlega hamingjudeginum 20. mars sl. Fulltrúar þriggja heilsueflandi sveitarfélaga fjölluðu um heilsueflingu út frá heimsmarkmiðunum og hamingja landsmanna eftir sveitarfélögum var á meðal þess sem fjallað var um á þessu áhugaverða málþingi. Fulltrúar sveitarfélaganna voru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri hjá Akureyrarbæ og Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, sem á sæti í stýrihópi Hafnarfjarðabæjar um heilsueflandi samfélag. Myndin hér að ofan er af Ellerti Erni, en málþingið fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Heimsmarkmiðin standa fyrir heildstæða nálgun að vandamálum samtímans sem eru mörg hver orðin knýjandi og segja má að sú ákvörðun að nýta þau sem útgangspunkt fyrir málþingið hafi vakið verðskuldaða athygli. 
 

Nánar

Útivistar- og fjölskyldudagurinn Líf í lundi

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins sem haldinn verður hátíðlegur þann 23. júní nk. Markmiðið er að boðið verði upp á skipulagða viðburði í skógum landsins, sem hvetja almenning til þess að hreyfa sig og njóta dásamlegrar samveru úti í iðagrænni náttúrunni. Skógræktarfélag Íslands hefur sett saman samstarfsnefnd sem heldur utan um kynningu og heildarskipulag dagsins sjálfs og  aðstoðar eftir fremsta megni skipuleggjendur viðburða. Hefur verkefnið fengið styrk sem verður nýttur til að auglýsa og kynna viðburði dagsins. Eru sveitarfélög hvött til að kynna sér nánar verkefnið.

Nánar

Kynningarfundur um handbók í íbúalýðræði

Samband íslenskra sveitarfélaga gekkst nýlega fyrir kynningarfundi vegna handbókar um aðferðir og leiðir í íbúalýðræði. Handbókin er gefin út af alþjóða- og þróunarsviði sambandsins og er mikilvægur liður í þekkingaruppbyggingu um íbúasamráð sveitarfélaga hér á landi.

Nánar
Copyright © 5_2018
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp