Copy
Skoða póstinn í vafra

Sveitarfélögin og heimsmarkmiðin

Boðað er til kynningarfundar um sveitarfélögin og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna  á Grand hóteli, föstudaginn 15. febrúar nk. kl. 13:00 til 16:30. 

Auk þess sem fjallað verður um framkvæmd heimsmarkmiðanna hér á landi og verkefnastjórn, segja sveitarfélög frá afstöðu sinni til heimsmarkmiðanna og innleiðingar þeirra. Einnig verður þeim sóknarfærum gerð skil sem heimsmarkmiðin fela í sér á sveitarstjórnarstigi, bæði fyrir sveitarfélögin sem slík og einnig innan einstakra málaflokka, s.s. orkumála og heilbrigðisþjónustu.

Fundurinn hefst á ávarpi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, en ráðuneyti hennar leiðir af hálfu ríkisins innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi.

Framsögur verða fluttar af hálfu verkefnisstjórnar heimsmarkmiðanna, Kópavogsbæjar, Grundarfjarðarbæjar, Reykjanesbæjar, Lánasjóðs sveitarfélaga og heilsueflandi samfélaga, svo að dæmi séu tekin. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, lýkur svo fundinum með samantekt um stöðu málsins og næstu skref. Kynningarfundurinn er ætlaður kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélaga.

Skráning

Stjórn sambandsins lýsir ánægju með framkomnar tillögur í húsnæðismálum

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga ræddi á fundi sínum í dag um niðurstöður átakshóps forsætisráðherra um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Fjallað var um þær tillögur sem víkja að sveitarfélögum og aðgerðum á þeirra vegum. 

Leggur stjórn áherslu á, að fulltrúar sveitarfélaga taki beinan þátt í mótun á útfærslum og framfylgd tillagna og hvetur til þess að komið verði á markvissu samstarfi stjórnvalda og helstu haghafa um úrbætur í húsnæðismálum á grundvelli niðurstaðna átakshópsins.

Þá leggur stjórn einnig áherslu á að útfærslur verði einfaldar í framkvæmd, að þær falli vel að þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir og að framkvæmd verði ekki of íþyngjandi fyrir sveitarfélög. 

Nánar

Heildarendurskoðun á málefnum barna og ungmenna

Samhliða uppskiptingu velferðarráðuneytis í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti um sl. áramót, varð til nýtt ráðuneyti barnamála, sem heyrir undir félagamálaráðuneyti. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur í framhaldinu boðað heildarendurskoðun á málefnum barna og er undirbúningur þeirrar vinnu vel á veg kominn.

Endurskoðuninni er ætlað að tryggja samræmda framkvæmd og þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra á öllum sviðum og markvissa eftirfylgni með aðgerðum innan málaflokksins.

Auk þess sem mótuð verður ný stefna, framtíðarsýn og markmiðssetning fyrir stjórnvöld í málefnum barna, verður fjögurra ára framkvæmdaáætlun lög fyrir Alþingi, þar sem aðgerðum verður forgangsraðað og einstök markmið innan málaflokksins verða útfærð.  

Nánar

Samræmd móttaka flóttafólks

Félagsmálaráðuneyti undirbýr nú innleiðingu á samræmdri móttöku flóttafólks. Auglýst verður eftir sveitarfélögum sem vilja taka á móti flóttafólki og gerður við þau samningur þar að lútandi. Hlutverk móttökusveitarfélags verður að tryggja samfellda og sveigjanlega þjónustu með einstaklingsmiðaðri áætlun ásamt því að tryggja flóttafólki aðgang að leiguhúsnæði.

Tillögur að samræmdri móttöku fyrir flóttafólk eru byggðar á skýrslu nefndar sem ráðherra skipaði til að kortleggja stöðu þessara mála og gera tillögur til úrbóta. Skilaði nefndin ráðherra skýrslu sinni nýverið, en þar er lögð áhersla á að flóttafólk njóti þjónustu við komuna til landsins í samræmi við þær áherslur sem koma fram í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Nánar

Stefnuleysi í vindorkumálum gagnrýnt

Stefnuleysi í orkumálum og óskýrt lagaumhverfi var á meðal þess sem Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Samandi íslenskra sveitarfélaga, gagnrýndi í framsögu sinni á málþingi sem verkefnastjórn 4. áfanga rammaáætlunar og umhverfis- og auðlindaráðuneyti héldu nýlega um vindorkunýtingu. Sveitarfélög eigi af þessum sökum í vaxandi erfiðleikum með að takast á við áskoranir í vindorkumálum.

Hjá Guðjóni komu einnig fram efasemdir um gagnsemi þess að fjalla um smærri vindorkuver á vettvangi rammaáætlunar. Hægagangur við vinnslu og afgreiðslu rammaáætlunar sé ávísun á kyrrstöðu, sem geti unnið gegn stefnu stjórnvalda á öðrum sviðum, þ.á.m. aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og þeim áherslum sem þar eru á orkuskipti í samgöngum og iðnaði.

Ef ekki verði breyting á núverandi stöðu má telja líklegt að lítil vindorkuver, minni en 10 MW, rísi víða um land. Þá þróun verði að forðast í ljósi þess, að besta leiðin til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vindorkuvera er almennt talin sú, að byggja stærri vindmylluþyrpingar á færri stöðum. Varpaði Guðjón fram í þessu sambandi þeim möguleika, að fella stór vindorkuver (>50 MW) undir rammaáætlun og fela sveitarstjórnum ákvarðanir varðandi minni vindorkuver.

Nánar

Endurmenntunarsjóður hefur opnað fyrir umsóknir

Stjórn Námsleyfasjóðs auglýsir eftir umsóknum í Endurmenntunarsjóð grunnskóla vegna endurmenntunarverkefna skólaárið 2019-2020. Umsóknarfrestur er til og með 21. febrúar 2019.

Þeir sem hyggjast standa fyrir endurmenntun fyrir félagsmenn í Félagi grunnskólakennara (FG) og Skólastjórafélagi Íslands (SÍ) geta sótt um framlög úr sjóðnum. Umsóknum er skilað á rafrænu formi á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Umsóknarfrestur er til og með 21. febrúar nk.

Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að allt að þriðjungi ráðstöfunarfjár verði úthlutað til verkefna sem tengjast:

  • Skóla margbreytileikans
  • Heilbrigði og velferð nemenda
  • Eflingu íslenskrar tungu í öllum námsgreinum

 

Nánar
Copyright © 1_janúar_2019
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp