Copy
Skoða póstinn í vafra

Seltjarnarnesbær hlaut Orðsporið 2019

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, tók við Orðsporinu 2019 á Degi leikskólans þann 6. febrúar sl. Um hvatningarverðlaun er að ræða sem Félag leikskólakennara veitir árlega og voru þau að þessu sinni veitt með hliðsjón af starfsaðstæðum og starfskjörum leikskólakennara umfram kjarasamning. Fast á hæla Seltjarnarnesbæjar komu Reykjavíkurborg og Hvalfjarðarsveit. 

Niðurstaða dómnefndar byggði á könnun sem Félag leikskólakennara gerði nýlega á meðal sveitarfélaga landsins á þáttum á borð við aukinn undirbúningstíma, tölvukost, styttingu vinnuviku, rými barna og ýmis hlunnindi.

Hvatningarverðlaunin hlaut svo Seltjarnarnes með vísan til þess, að undirbúningstími leikskólakennara hefur verið aukinn, tölvukostur er í góðu lagi, starfsfólki hefur verið fjölgað, föst viðbótargreiðsla er greidd mánaðarlega og leikskólakennarar njóta hlunninda á borð við samgöngustyrk og líkamsræktarstyrk og fá einnig ókeypis sundkort og bókasafnskort. Þá er unnið að styttingu vinnuvikunnar á Seltjarnarnesi.

Þess má svo geta að Setljarnarnes styður starfsmenn til leikskólanáms. Felst stuðningurinn m.a. í því að leikskólastarfsmenn í námi halda fullum launum gegn 20% vinnuframlagi á lokaári sínu í náminu.

Nánar

Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga 2019 - 2022

Hag- og upplýsingasvið hefur nú lokið árlegri úrvinnslu á fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og benda niðurstöður til þess að áætlanagerð sé á heildina litið í takti við almennar væntingar um hægari hagvöxt á næstu misserum. Fjárfestingar ársins hækka eilítið frá síðasta ári eða um 2%, en dragast eftir það saman á árunum 2020-2022. Rekstrarafgangur fer jafnframt vaxandi sem hlutfall af tekjum og verður 5% árið 2022. Gangi áætlanir eftir, má einnig gera ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar fari áfram lækkandi sem hlutfall af tekjum og að skuldahlutfall A-hluta verði á árinu 2022 komið niður í 94%. Þá sýnir útkomuspá stærstu sveitarfélaga betri afkomu á árinu 2018 en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir. Útgáfa á fréttabréfi hag- og upplýsingasviðs um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir 2019 til 2022 er væntanleg á næstu dögum.

Útgefið efni

Drög að opinberri orkustefnu rýnd

Mikilvægt er að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga, að opinber orkustefna svari spurningum sem lúta að endurgjaldi fyrir nýtingu auðlinda ásamt kröfum sveitarfélaga um sanngjarnar skattgreiðslur af raforkuframleiðslu og raforkuflutningi. Einnig telur sambandið brýnt að skattgreiðslur til sveitarfélaga vegna raforkumannvirkja verði að hækka, svo að ekki séu til staðar sérstakar skattaívilnanir vegna framleiðslu og flutnings á raforku. 

Þessi álitamál og önnur eru á meðal þeirra sem sambandið fjallar um í umsögn sinni um drög sem samráðshópur um gerð orkustefnu hefur lagt fram til umsagnar á samráðsgátt stjórnarráðsins. Af öðrum málum sem sambandið bendir á í umsögn sinni má nefna staðarval sveitarfélaga á vindorkuverum, einföldun skipulagslöggjafarinnar, áhrif aukinnar náttúruverndar á nýtingu og flutning á raforku og bann við rennslisvirkjunum og vindorkuverum í friðlýsingu stórra landsvæða, svo að dæmi séu tekin. 

Fulltrúar sambandsins kynntu afstöðu þess í vikunni sem leið á sameiginlegum fundi með starfshópnum. Drög  að 1. áfanga að orkustefnu verða til umsagnar á samráðsgáttinni  til 15. febrúar nk. Þess má svo geta að Samtök orkusveitarfélaga hafa einnig skilað inn umsögn um málið. Þar benda samtökin m.a. á að skilvirkasta leiðin til að veita nærsamfélögum hlutdeild í arði af orkuvinnslu sé að skattleggja framleiðsluna og að skipting þeirra skatttekna fari eftir skýrum og gagnsæjum reglum.

 

Nánar

Umræðu- og upplýsingafundur um NPA

Samband íslenskra sveitarfélaga stendur fyrir umræðu- og upplýsingafundi um innleiðingu nýrra og breyttra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Verður horft sérstaklega til umfjöllunar um notendastýrða persónulega aðstoð og gildistöku reglugerðar um NPA. Framsögur flytja m.a. Þór Garðar Þórarinsson, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu og fjallar hann um NPA-reglugerð og einnig um handbók um NPA og samningsform. Þá fjalla Sigurbjörg Fjölnisdóttir, verkefnastjóri á fjölskyldusviði Mosfellsbæjar og Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, félagsmálastjóri Fjarðabyggðar, um málið út frá sjónarhorni sveitarfélaga og Hjörtur Örn Eysteinsson, skrifstofustjóri NPA miðstöðvarinnar út frá sjónarhorni notenda. Fundarstjóri er Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarmaður hjá sambandinu.

Dagskrá og skráning

Áhugi mikill á heimsmarkmiðunum 

Glokala Sverige - Agenda 2030 er yfirskrift samstarfs- og fræðsluverkefnis um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem SKL, samtök sveitarfélaga og svæða, standa fyrir í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð. 

Á meðal þess sem þátttakendum Glokal Sverige-verkefnisins stendur til boða er aðild að staðbundnum fyrirlestrum og vinnustofum, ásamt aðgangi að veffræðslu, kynningarmyndböndum og þekkingarmiðlun, svo að dæmi séu tekin. Kannanir SKL sýna að áhugi sænskra sveitarfélaga er mikill á heimsmarkmiðunum. Innleiðing er þó mislangt á veg komin. Á meðan sum sveitarfélög og svæði eru vel á veg komin, eru önnur enn að skoða hvernig þau geti sem best staðið að málum. Vonir standa til þess að samfara Glokala Sverige dragi úr þeim mun sem hefur verið myndast á milli sveitarfélaga í innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Hér á landi er ekki áhugi sveitarfélaga ekki mikill hjá á heimsmarkmiðunum og eins og í Svíþjóð eru sveitarfélög mislangt á veg komin í innleiðingu. Þess má svo geta að sambandið gengst fyrir kynningarfundi um sveitarfélögin og heimsmarkmiðin þann 15. febrúar nk. þar sem fjallað verður um stöðu þessara mála hér á landi á sveitarstjórnarstigi. 

Skráning á kynningarfundinn

Fræðsla um vellíðan leikskólabarna

Embætti landlæknis hefur gefið út fjögur fræðslumyndbönd fyrir foreldra leikskólabarna og starfsfólk leikskóla. Myndböndin eru hluti af aðgerðaráætlun um lýðheilsustefnu frá 2016, en þar er m.a. kveðið á um framleiðslu á fræðsluefni um hvíld, skipulagða hreyfingu, útivist, næringu og geðrækt barna í leikskólum (aðgerð 2.1.2). 

Sérfræðingar hjá embættinu ákváðu í samráði við faghóp Heilsueflandi leikskóla að gera fræðslumyndbönd með yfirskriftinni „Vellíðan leikskólabarna“. Lögð var áhersla á að myndböndin væru aðgengileg og á léttum nótum, leikin og talsett af börnum. Þá var einnig lögð rík áhersla á að í hverju myndbandi kæmu fram ákveðin lykilskilaboð sem byggja á rannsóknum. Hægt er að velja íslenskan, enskan og pólskan texta.  

Sjá myndböndin

Frumvarp um kosningaaldur endurflutt

Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarstjórnir til þess að taka til umfjöllunar beiðni sem þeim hefur borist frá nefndasviði Alþingis, um umsögn vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur) 356. mál. Um er að ræða endurflutt þingmál, sem sambandið ásamt allmörgum sveitarfélögum og ungmennaráðum veitti umsögn um á síðasta löggjafarþingi. 
Nefndasvið Alþingis hefur orðið við beiðni sambandsins um framlengdan umsagnarfrest til 4. mars nk. Áhersla er lögð á að sveitarstjórnarmenn taki afstöðu til málsins, sem verður tekið til umfjöllunar í stjórn sambandsins þann 22. feb. nk. Þá tekur Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs, einnig við ábendingum og tillögum á gudjon.bragason@samband.is.  

Nánar
Copyright © 2_febrúar_2019
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp