Copy
Skoða póstinn í vafra

Nýjar aðferðir við orkuöflun

Eftirspurn eftir raforku er nú þegar umfram framboð hér á landi, segir í nýútkominni skýrslu, sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur látið gera um nýjar aðferðir við orkuöflun. Þessi umframeftirspurn gerir að verkum, að orkuþörf næstu áratuga er líklega vanmetin um eina og hálfa búrfellsvirkjun. Þá fer orkuþörf landsmanna hratt vaxandi á næstu árum og áratugum, ekki hvað síst vegna umhverfisvænni atvinnuhátta og orkuskipta.

Meginniðurstaða skýrslunnar er svo sú, að fari hefðbundnum kostum í jarðvarma og vatnsafli, fækkandi, verði að huga að öðrum endurnýjanlegum orkukostum og eru vindorka, lítil vatnsorkuver og varmaorka þeir kostir sem taldir eru fýsilegastir til orkuframleiðslu. Þá er í skýrslunni talsvert fjallað um aðkomu sveitarfélaga, sem gegna lykilhlutverki fyrir orkubúskap þjóðarinnar, ekki hvað síst í skipulagsmálum. Jafnframt hafa smávirkjunarkostir verið talsvert til skoðunar á vegum sveitarfélaga upp á síðkastið og einnig virðist áhugi fara vaxandi á vindorkunýtingu.

Nánar

Jarðvegur fyrir miðhálendisþjóðgarð kannaður

Textadrög að fyrstu verkefnum þverpólitískrar nefndar, sem vinnur nú að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, eru nú til umsagnar í samráðsgátt ríkisins. Verkefnin snúa annars vegar að greiningu tækifæra með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu á byggðaþróun og atvinnulíf og hins vegar er um að ræða tillögur að helstu áherslum í atvinnustefnu.

Umsagnarfrestur var til 7. desember eða tvær vikur. Sá frestur hefur nú verið framlengdur til 21. desember nk. að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem þótti upphaflegi fresturinn heldur stuttur. 

Sveitarfélög eru hvött til að kynna sér þessar fyrstu tillögur nefndarinnar og skila inn umsögn um málið, ekki hvað síst þau sveitarfélög sem liggja að hálendinu. Málið varðar öll sveitarfélög landsins, með einum eða öðrum hætti. 

Sjá nánar á samráðsgátt

Áfangastaðaáætlanir allra landshluta kynntar

Áfangastaðaáætlanir landshlutanna voru kynntar á fjölsóttum kynningarfundi sem Ferðamálastofa gekkst nýlega fyrir. Verkefnið er það umfangsmesta sem unnið hefur verið á grundvelli Vegvísis í ferðaþjónustu. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ávarpaði fundinn. Hvatti hún sveitarfélög eindregið til þess að kynna sér áætlanirnar. Mikilvægt sé að þær nýtist bæði sveitarfélögum og landshlutum til þeirra uppbyggingar og atvinnuþróunar sem í þeim er stefnt að.

Einnig minnti Aldís á, að enn stæði á efndum ríkisstjórnarinnar varðandi gistináttagjaldið, en því er m.a. ætlað að greiða fyrir uppbyggingu sveitarfélaga á nauðsynlegum innviðum fyrir ferðaþjónustu. Í framhaldi af því að áfangastaðaáætlanir allra landshluta liggja nú fyrir, verða þær birtar á vef Ferðamálastofu ásamt stöðluðum grunnupplýsingum sem unnar verða upp úr þeim. 

Nánar

Sveitarfélögin og heimsmarkmiðin

Nordregio, Norræna byggðastofnunin, hefur gefið út skýrslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sveitarfélög á Norðurlöndum. Skýrslan nefnist Global goals for local priorities: The 2030 Agenda at local level og fjallar um brautryðjendur í innleiðingu heimsmarkmiðanna eða first movers. Af þeim 27 sveitarfélögum sem skýrslan nær til eru tvö íslensk; Kópavogsbær og Mosfellsbær.

Brautryðjendasveitarfélögin eiga það sameiginlegt að styðjast við heimsmarkmiðin í uppbyggingar- eða þróunarstarfi, s.s. við mörkun nýrrar umhverfisstefnu, í áætlanagerð fyrir bættum lífskjörum íbúa, í skipulagningu nýrra úthverfa og sameiningu sveitarfélaga svo að dæmi séu tekin. Svipaðar áherslur komu einnig fram varðandi árangur (e. success factors) og voru nokkrir árangursþættir nefndir af öllum sveitarfélögum sem skýrslan tók til.

Nánar

Skipan öldungaráðs - algengar spurningar og svör

Í framhaldi af gildistöku nýrra og breyttra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þann 1. október sl. hefur skipan öldungaráðs verið ofarlega á baugi hjá mörgum sveitarfélögum, en þessum nýju ráðum er ætlað að vera formlegur samráðsvettvangur um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála innan sveitarfélagins. Lögfræði- og velferðarsvið sambandsins hefur tekið saman helstu spurningar og svör um stofnun öldungaráðs. Fjallað er m.a. um fjölda fulltrúa, hvaða breytingar þurfi að gera á samþykktum sveitarfélagsins og hvaða stjórnsýslulega stöðu öldunagráð hefur, svo að dæmi séu nefnd. 

Nánar

Jafnlaunavottun frestað

Frestur vegna janflaunavottunar hefur verið framlengdur um ár. Í því felst að frestur þeirra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga sem hefði runnið út um næstu áramót, hefur verið framlengdur um ár eða til og með 31. desember 2019.

Í lögum um jafnlaunavottun er vinnumstöðum landsins skipt upp í fjóra stærðarflokka eftir fjölda starfsmanna og var þeim sem fylla fjölmennasta flokkinn ætlað að ljúka jafnlaunavottun fyrir næstu áramót. Í þessum flokki, sem telur vinnustaði með 250 starfsmenn eða fleiri, eru hátt á þriðja tug sveitarfélaga.

Frestur hvers stærðarflokks til að ljúka jafnlaunavottun rennur skv. lögunum út með árs millibili og átti jafnlaunavottuninni þannig að vera lokið á fjórum árum eða 31. desember 2021. Ferlið hefur síðan í heild sinni verið framlengt um ár. Líklega hefur mestu ráðið þar um, að afkastageta vottunarstofa hefur verið þanin til hins ýtrasta síðustu misseri, samfara lögleiðingu vottunarinnar.

Nánar

Undanþágur veittar með skilyrðum

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur veitt undanþágu frá starfsleyfi með skilyrðum vegna sjókvíaeldis á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Tímabundið starfsleyfi heimilar Arctic Sea Farm framleiðslu á 600 tonnum á ári og Fjarðalaxi 3.400 tonnum á ári. Starfsleyfin falla úr gildi í síðasta lagi þann 5. september 2019.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi, sem kunnugt er, starfsleyfi þessara fyrirtækja úr gildi í október sl. Skilyrðin eru í meginatriðum þau að fyrirtækin vinni með virkum hætti að því að bæta úr annmörkum á umhverfismati framkvæmda.  

Nánar
Copyright © 11_nóvember_2018
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp