Copy
Skoða póstinn í vafra

Grípa verður til aðgerða strax

Tillögur samráðshóps Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðir til að auka nýliðun meðal kennara liggja nú fyrir. Menntamálaráðuneyti hefur þegar hafið vinnu við að rýna tillögurnar og kostnaðarmeta og er stefnt að því að aðgerðir á vegum stjórnvalda verði kynntar í júní nk.

Tillögurnar miða bæði að því að fjölga kennurum og að sporna gegn brotthvarfi þeirra úr starfi og voru þær kynntar á fundi sem haldinn var í síðustu viku með þremur ráðherrum eða rmenntamálaráðherra, sveitarstjórnarmálaráðhera og fjármálaráðherra. Áður hafði Kennarasamband Íslands fengið tillögurnar til umsagnar og voru ábendingar þess hafðar til hliðsjónar við endanlega gerð tillagnanna. Í umsögn kennarasambandsins segir að tillögurnar nái á heildina litið vel utan um nýliðunarvandann í kennarastétt í leikskólum og grunnskólum.

Tillögurnar eru tæplega 30 talsins og er þeim skipt upp í sex aðgerðarflokka. Í viðtali við RÚV að fundinum loknum segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands sveitarfélaga að tillögurnar marki tímamót.

Nánar

Undirbúningur hafinn fyrir næstu PISA-könnun

Undirbúningi fyrir næstu PISA-könnun hefur verið hrundið af stað með kynningarfundi sem Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, átti með helstu hagaðilum skólasamfélagsins. Telur ráðherra mikilvægt að könnuninni verði sköpuð traust umgjörð þann dag sem hún fer fram í öllum skólum landsins.

Næsta PISA könnun fer fram í öllum grunnskólum 12. - 23. mars og 3. - 13. apríl nk. Aðkoma sveitarfélaga skiptir sköpum fyrir framkvæmd verkefnisins og þá sérstaklega að sveitarstjórn á hverjum stað veiti því fullan stuðning.

Mikilvægt er að nemendur geti notið sín meðan á þátttöku stendur svo að könnunin skili sem áreiðanlegustum niðurstöðum. Í umræðum á fundinum kom sem dæmi fram, að vel hefur reynst að nemendur fái morgunmat fyrir könnun. Einnig skiptir jákvæð hvatning máli og að aðstaða þátttakenda sé góð. 

Nánar

Samanburður á orkukostnaði heimila

Verulegur munur er á minnsta og mesta orkukostnaði heimila eftir landshlutum, óháð því hvort litið er til húshitunar eða raforkunotkunar. Þá virðist raforkunotendum almennt ekki ljóst, að þeim er heimilt að skipta við sölufyrirtæki að eigin vali, að því er kemur fram í samantekt Byggðastofnunar.

Um viðamikla samantekt er að ræða og eru niðurstöður í sumum tilvikum sláandi. Munur reyndist mestur á hæsta og lægsta húshitunarkostnaði eða 246%. 

Auk þess að leiða í ljós greinilegan mun á milli landshluta, reyndist orkukostnaður í öllum tilvikum meiri í dreifbýli en í þéttbýli. Greint er frekar frá niðurstöðum og verðsamanburði á milli áranna 2015, 2016 og 2017 á vef Byggðastofnunar.

Nánar

Rammasamningur við AwareGo

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert rammasamning við AwareGo, þekkingarfyrirtæki í öryggisvitundarfræðslu, um sérkjör fyrir sveitarfélög á fræðsluefni fyrir starfsfólk. Öryggisvitund er mikilvægur liður í upplýsingaöryggi og tengist nýju persónuverndarlöggjöfinni sem er væntanleg síðar á þessu ári.

Þau sveitarfélög sem hafa áhuga á að nýta sér samninginn skrá sig á vef ArweGo. Skráning fyrir 16. apríl nk. veitir 44%-99% afslátt frá listaverði. Tilboðskjör ráðast af fjölda stöðugilda og eru birt fyrir hvert sveitarfélag í viðauka samningsins.

Rammasamningurinn veitir aðgang að 24 fræðslumyndböndum sem AwareGo hefur framleitt ásamt hugbúnaði sem unnið er nú að og auðvelda mun dreifingu myndbanda til starfsmanna. Þá er stefnt að útgáfu 24 myndbanda til viðbótar á samningstímanum. Samningurinn var gerður í samráði við UT-hóp sambandsins og var hann kynntur efnislega á persónuverndardegi sveitarfélaga í desember á síðasta ári.

Nánar

Kosningar framundan, áskorun á ýmsa vegu

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjallar í leiðara nýjustu Sveitarstjórnarmála (1. tbl. 78. árg.) um þær áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir í komandi kosningum þann 26. maí nk. Minnkandi þátttaka sé vaxandi áhyggjuefni, en kjósendum hefur fækkað um nær fjórðung frá árinu 1974 þegar rösklega 88% kjósenda mættu á kjörstað. Einnig bendir Halldór á vaxandi endurnýjun kjörinna fulltrúa í hverjum kosningum og spyr hvort álag utan venjulegrar vinnu, lág laun og neikvæð endurgjöf valdi því að stór hluti frambjóðenda ákveði að gefa ekki kost á sér aftur að fyrsta kjörtímabili loknu. Að konur séu þar í meirihluta er að sögn Halldórs sérstakt áhyggjuefni. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum sé nú 44,5% og megi það hlutfall ekki lækka, líkt og gerðist í alþingiskosningunum á síðasta ári.  

Nánar

Ný handbók um íbúasamráð og þátttöku íbúa

Í tilefni af því að komin er út handbókin Íbúasamráð í sveitarfélögum og þátttaka íbúa verður blásið til kynningarfundar í húsakynnum sambandsins að Borgartúni 30 þann 22. mars nk.

Allir áhugasamir eru velkomnir eftir því sem húsrúm leyfir. Sveitarfélög eru jafnframt hvött til þess að huga að þátttöku starfsfólks sem gæti tekið að sér að vera leiðandi í þekkingaruppbyggingu um íbúasamráð innan sveitarfélagsins. Boðið verður upp á fjarfundatengingu.

Stefnt er að því að kynningarfundurinn fari fram kl. 14:00 - 16:00 í húsnæði sambandsins að Borgartúni 30. Tekið er við skráningu á fundinn og/eða ósk um fjarfundatengingu á anna.g.bjornsdottir@samband.is.

Sveitarfélögum stendur til boða að ráða háskólamenntaða atvinnuleitendur til sumarstarfa með fjárstyrk frá Vinnumálastofnun.
Byggðastofnun stendur fyrir málþingi um raforkumál á Íslandi fimmtudaginn 8. mars nk. í Hofi á Akureyri, kl. 13:00 - 16:30. 
Copyright © 2_2018
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp