Copy
Skoða póstinn í vafra

Mistök í framkvæmd samræmdu prófanna

Sem kunnugt er mistókst framkvæmd Menntamálastofnunar á samræmdum könnunarprófum með þeim afleiðingum, að nemendur áttu í erfiðleikum með að þreyta tvö af þremur könnunarprófum. Samræmdu prófin eru lögð rafrænt fyrir í 9. bekk grunnskóla í íslensku, stærðfræði og ensku, en vegna tæknilegra annmarka mistókst fyrirlögn bæði íslenskuprófsins og enskuprófsins.

Á vef Menntamálastofnunar kemur fram að tæknilegir örðugleikar hafi í báðum tilvikum komið upp vegna álags á vefþjón. Prófakerfið hafi ekki staðist vænt álag þrátt fyrir umfangsmiklar athuganir og álagsprófanir hjá þjónustuaðila. Harmar stofnunin mjög málið og þau áhrif sem það hefur haft á nemendur, foreldra og skólasamfélagið í heild. 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti harmar einnig þessa mistæku framkvæmd og hefur ráðherra boðað á sinn fund helstu haghafa í málinu næstkomandi miðvikudag, þann 14. mars. Mun skólateymið sitja þann fund af hálfu sambandsins. Þar munu fulltrúar frá Menntamálastofnun greina frá framkvæmdinni og því sem fór úrskeiðis. Þá verður það rætt sérstaklega hvernig vinna megi úr þeirri stöðu sem komin er upp, með hagsmuni nemenda að helsta leiðarljósi.   

Samkomulag undirritað um útfærslu á launaþróunartryggingu

Samkomulag um framhald á launaþróunartryggingu opinberra starfsmanna sem eru í BSRB eða ASÍ var nýlega undirritað. Launaauki starfsfólks sveitarfélaga í ASÍ og BSRB nemur 1,4% samkvæmt niðurstöðum úr samburði á launaþróun frá nóv. 2013 til nóv. 2017. Launaaukinn reiknast frá 1. janúar 2018.

Samkomulagið var undirritað í húsakynnum BSRB og er það hluti af rammasamkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins náðu í október 2015. Aðild eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ, BSRB og Samtök atvinnulífsins.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga mun svo á næstunni ganga frá samkomulagi við stéttarfélögin varðandi nánari útfærslu launaaukans.

Nánar

Aukin útlán samhliða uppgjöri lífeyrisskuldbindinga sveitarfélaga

Afkoma Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. (LS) var í samræmi við væntingar á síðasta ári eða 777 m.kr. Útlán vegna uppgjörs sveitarfélaga á lífeyrisskuldbindingum námu á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs um 15 milljörðum kr. sem samsvarar að jafnaði útlánum lánasjóðsins á tveggja ára tímabili. Útlánin eru á venjubundnum 2,6% vöxtum. Aðalfundur LS fer fram á Grand hóteli, föstudaginn 23. mars nk. kl. 15:00.

Nánar

Frumvarp til breytinga á mannvirkjalögum

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sótt um framlengdan umsagnarfrest vegna frumvarps til breytinga á mannvirkjalögum fram í næstu viku.  Frumvarpið varðar stjórnsýslu mannvirkjamála og hefur umtalsverða þýðingu fyrir störf byggingarfulltrúa sem og önnur lögákveðin verkefni sveitarfélaga á sviði byggingarmála.

Jafnframt hvetur sambandið alla hlutaðeigandi til að kynna sér frumvarpið sem og þau sjónarmið sem kynnt voru í bréfi dags. 28. febrúar sl. til framkvæmdastjóra sveitarfélaga, formanna byggingarnefnda, byggingarfulltrúa og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka.

Nánar

Styrkir úr Sprotasjóði

Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla vegna skólaársins 2018 - 2019. Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. 

Áherslusvið sjóðsins eru að þessu sinni menntun fyrir alla, verklegt nám og vellíðan.

Nánar

Ertu komin(n) með aðgang?

Útboðsvefur er sameiginlegur vettvangur fyrir opinbera aðila til að birta útboðsauglýsingar og aðrar auglýsingar vegna fyrirhugaðra innkaupa. Sem stendur er  31 útboðsaðili skráður með 33 virkar auglýsingar, þar af 21 sveitarfélag og undirstofnanir.
 
Þau sveitarfélög sem vilja færa sér þennan vettvang í nyt þurfa að sækja um aðgang til Ríkiskaupa. Birna Guðrún Magnadóttir tekur á móti aðgangsbeiðnum og veitir jafnframt nánari upplýsingar á birna@rikiskaup.is

Nánar
Kynningarfundur um handbók um íbúalýðræði verður í húsnæði Sambands íslenskra sveitarfélaga, í Borgartúni 30 5. hæð, þann 22. mars kl. 14:00-16:00. Þátttakendur þurfa á skrá sig með tölvupósti á anna.g.bjornsdottir@samband.is.
Málþing um heilsueflandi samfélög og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verður í hátíðarsal Háskóla Íslands, 20. mars kl. 12:30-16:30. Fulltrúar heilsueflandi sveitarfélaga verða að sjálfsögð með áhugaverð erindi. Taktu daginn frá.
Copyright © 2_2018
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp