Copy
Skoða póstinn í vafra

Misskilningur um gildissvið nýrra persónuverndarlaga 

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að misskilnings gæti víða innan leik- og grunnskóla á áhrifum nýju persónuverndarlaganna á skólastarf. Hefur stofnunin því gefið út ábendingu um hvað betur megi fara í þessum efnum, en innan skólanna virðist hafa verið tilhneiging til oftúlkunar á gildissviði laganna.

Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar frumkvæði Persónuverndar í málinu. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir sveitarfélaga um eðlilegan aðlögunartíma, hafi svigrúm þeirra til að undirbúa sig fyrir gildistöku laganna verið lítið sem ekkert. Stofnunin er því hvött til áframhaldandi útgáfu á leiðbeinandi ábendingum þar sem mörgum spurningum sé enn ósvarað um nýju löggjöfina og innleiðingu hennar. 

Að sögn Bryndísar Gunnlaugsdóttur, lögfræðings hjá sambandinu, endurspeglast á margan hátt í ábendingu Persónuverndar, að undirbúningur vegna innleiðingar persónuverndarreglugerðar ESB hafi á allan hátt verið ófullnægjandi gagnvart sveitarfélögunum. Þá hafi  þung viðurlög við brotum á lögunum eflaust haft sitt að segja fyrir túlkun og um leið innleiðingu þeirra á lögunum.

Nánar

Nýsköpunarvogin - ný og áhugaverð könnun

Um 800 aðilar hjá ríki og sveitarfélögum fengu í byrjun mánaðarins Nýsköpunarvogina í pósthólfið sitt. Nýsköpunarvogin er samnorræn könnun sem er nú í fyrsta sinn lögð fyrir á Íslandi, en henni er ætlað bæði að kortleggja nýsköpun hjá hinu opinbera og efla. Danir og Norðmenn hafa nú þegar lagt könnunina fyrir hjá sér og nú í haust bætist Ísland ásamt hinum Norðurlöndunum við hópinn. Umsjón með framkvæmd könnunarinnar hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Um mikilvægi nýsköpunar í opinberri þjónustu þarf vart að fjölyrða, en á meðal þess sem könnuninni er ætlað að varpa ljósi á má nefna umfang nýsköpunar hjá því opinbera, hvaða þættir styðji við nýsköpun og hvort og þá hvaða hindranir séu í veginum. Einnig er spurt um hvernig opinberir vinnustaðir deili nýjungum sín á milli og hvaða virði nýsköpun skapar því opinbera hér á landi.

Þeir sem fengið hafa könnunina eru hvattir til að svara. Opið er fyrir þátttöku út þessa viku eða til föstudagsins 2. nóvember nk. Gert er ráð fyrir að niðurstöður verði kynntar um leið og þær liggja fyrir ásamt áhugaverðum nýsköpunarverkefnum. Frekari upplýsingar um Nýsköpunarvogina eru veittar á netfanginu postur@fjr.is.

Hér má sjá áhugaverðar upplýsingar og verkefni sem hafa skilað sér í gegnum dönsku nýsköpunarvogina

Eyða verður óvissu vegna innleiðingar NPA

Stjórn sambandsins fjallaði á 864. fundi sínum, þann 10. október sl., um viðbrögð velferðarráðuneytis við þeirri ósk að sveitarfélög fengju frest vegna gildistöku NPA 1. október sl. Var í ljósi þess að reglugerð um framkvæmd þjónustunnar liggur enn ekki fyrir, farið fram á að 52 af 103 samningum vegna ársins 2019 yrði frestað fram að áramótum.

Í bókun sinni um málið átelur stjórn sambandsins þann drátt sem orðið hefur á kostnaðarmati vegna innleiðingar sveitarfélaga á NPA-samningum. Þá telur stjórnin óboðlegt að NPA hafi verið lögfest sem þjónustuform, án þess að reglugerð liggi efnislega fyrir um framkvæmd þess. Áríðandi sé að staða málsins verði rædd til hlítar á fyrirhuguðum fundi sambandsins með félags- og jafnréttisráðherra nú fyrir lok októbermánaðar. Eyða verði þeirri óvissu sem myndast hefur.

Nánar

Ríflega helmingur með yfir 90% mönnun

Alls eru 32 sveitarfélög, af þeim 62 sem reka grunnskóla, með allar eða nær allar kennarastöður mannaðar réttindakennurum. Þar af eru 26 sveitarfélög staðsett á landsbyggðinni. 

Þegar rýnt er í lykiltölur úr rekstri sveitarfélaga fyrir árið 2017 kemur í ljós, að mönnunarvandi skóla einskorðast ekki við landsbyggðirnar. Í allri umræðu um kennaraskort heyrist þó gjarnan talað um að nýliðunarvandinn sé mun alvarlegri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Helsta breytingin frá árinu 2016 virðist sú, að nýliðunarvandi einskorðast ekki við landsbyggðirnar heldur blasir þessi alvarlegi vandi nú við í öllum landshlutum.

Vonir eru bundnar við að tillögur ríkisstjórnarinnar sem miða að aukinni nýliðun í kennarastéttum og fjölgun nemenda í kennaranámi komi til framkvæmda í haust.

Nánar

Er rekstur sveitarfélaga sjálfbær?

Á nýafstaðinni fjármálaráðstefnu sveitarfélaga flutti Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, yfirgripsmikið erindi þar sem hann velti fyrir sér spurningunni hvort sveitarfélög séu fjárhagslega sjálfbær. Erindi sitt byggði Yngvi á greiningu sem Analytica vann fyrir samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál.

Meðal helstu niðurstaðna var að fjölgun fólks á vinnufærum aldri sé  afgerandi um  hvort rekstur sveitarfélaga er fjárhagslega sjálfbær til framtíðar litið. Rannsókn Analytica bendir einnig til þess, að tekjur sveitarfélaga muni vaxa hægar en gjöld á því tímabili sem lagt er undir í rannsókninni; tekjur um 3,1% á ári en gjöld um 3,8%. Vekur það spurningar um fjárhagslegt sjálfbærni sveitarfélaga, þegar til lengdar lætur. 

Í erindi sínu vakti Yngvi jafnframt sérstaka athygli á spá um afar öran vöxt útgjalda til málefna fatlaðra, sem er upp á 10% árlega aukningu að raungildi á sama tíma og reiknað er með að tekjur sveitarfélaga muni vaxa um rösklega 3%.
 

Nánar

Forskot til framtíðar

Fjallað verður um vinnumarkað framtíðarinnar, með áherslu á möguleg áhrif breyttrar heimsmyndar á náms- og atvinnutækifæri ungs fólks á ráðstefnunni Forskot til framtíðar, sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica, föstudaginn 2. nóvember nk. kl. 09:00-14:10. 

Forskot til framtíðar stendur öllum opið og eru þeir sem hafa áhuga á mennta- og vinnumarkaðsmálum framtíðarinnar hvattir sérstaklega til að mæta. Að ráðstefnunni standa ASÍ, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Landssamtök íslenskra stúdenta, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Samband íslenskra sveitarfélaga

Skráning og dagskrá

Tímamót í velferðarþjónustu

Velferðarráðuneytið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands boða til tímamótaráðstefnu dagana 7. – 8. nóvember nk. Sjálfstæði, nýsköpun og samvinna eru lykilhugtök ráðstefnunnar, sem fjallar um velferðarþjónustuna á Íslandi, stöðu hennar og horfur til framtíðar litið. Fjöldi þeirra sem þurfa aðstoð og þjónustu vex hröðum skrefum samhliða kröfum um aukin gæði og einstaklingsmiðaða þjónustu. Sjónum verður beint að þessari þróun mála ásamt þeim tækifærum sem framundan eru til að gera betur.

Fimmtudaginn 8. nóvember fara fram málstofur í tengslum við ráðstefnuna, þar sem kafað verður dýpra ofan í skilgreind málefni, s.s. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvinnar stuðningsþarfir, framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og nýsköpun í velferðarþjónustunni með áherslu á norræna nýsköpun.

Skráning og dagskrá

Árbók sveitarfélaga 2018

34. árgangur af Árbók sveitarfélaga er komin út. Árbókin hefur í gegnum tíðina verið afar vinsæl meðal sveitarstjórnarfólks sem og margra annarra er láta sig sveitarstjórnarmál varða. Bókin er þægileg til uppflettingar og samanburðarrannsókna enda má finna þar ýmiskonar tölfræði úr rekstri og starfsemi sveitarfélaga. Árbókin er á sama verði og í fyrra eða á kr. 4.000. Tekið er við pöntunum í síma 515 4900 eða á netfanginu sigridur@samband.is.

Copyright © 10_október_2018
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp