Copy
View this email in your browser

Lífskjarasamningurinn er grundvöllur allra kjaraviðræðna við stéttarfélögin

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur Lífskjarasamninginn, sem gerður var á almennum markaði á síðasta ári, algjörlega til grundvallar í kjaraviðræðum við stéttarfélög enda hefur hann þegar skapað skilyrði til lægri vaxta og minni verðbólgu.

Þann 10. febrúar sl. samþykktu félagar í Starfsgreinasambandinu (SGS) kjarasamning við sambandið með miklum meirihluta, eða 80,55%. Það sama gerðu félagar í Verkalýðsfélagi Akraness 24. janúar, en þar var samningurinn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Í samningnum við SGS mun hækkun lægstu launa verða allt að 30,3% á kjarasamningstímabilinu. 

Skráning raunverulegra eigenda – skylda sveitarfélaga

Sambandið minnir á að frá og með 30. ágúst 2019 ber skráningarskyldum lögaðilum að skrá raunverulega eigendur hjá ríkisskattstjóra. Raunverulegur eigandi er alltaf einstaklingur, einn eða fleiri, og er sá sem í raun á starfsemi eða stýrir lögaðila með beinum eða óbeinum hætti. Raunverulegur eigandi er ekki endilega skráður eigandi fjármuna, eigna eða fyrirtækja. Lesa meira...

Sameiginlegur fundur fræðslumála- og félagsþjónustunefnda sambandsins

Miðvikudaginn 5. febrúar sl. fór fram fyrsti sameiginlegi fundur tveggja fastanefnda hjá sambandinu, þ.e. félagsþjónustunefndar og fræðslumálanefndar. Nefndir sambandsins, sem skipaðar eru fag- og sveitarstjórnarfólki í bland, hafa það hlutverk með höndum að vera ráðgefandi við stjórn og starfsmenn sambandsins á þeim fagsviðum sem heyrir undir þær.
Nánar um fundinn.

Fjárhagsáætlanir A-hluta sveitarfélaga 2020-2023

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið samantekt um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Um er að ræða fjárhagsáætlanir 70 sveitarfélaga af 72, en í þessum sveitarfélögum búa nærfellt allir íbúar landsins. Þar kemur m.a. fram að sveitarfélögin gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta verði aðeins verri á árinu 2020 en fjárhagsáætlun 2019 fól í sér, eða sem nemur 1,8% af tekjum í stað 2,5%.
Íslenskur fulltrúi í fyrsta sinn í yfirstjórn Evrópusamtaka sveitarfélagasambanda
Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að Evrópusamtökum sveitarfélagasambanda, CEMR. Á fundi pólitískrar stefnumótunarnefndar samtakanna 23.-24. janúar sl. var Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, kjörin í yfirstjórn samtakanna til næstu þriggja ára. Er það í fyrsta sinn sem Ísland á fulltrúa í yfirstjórn samtakanna. Nánar.

Ráðstefna um heimsmarkmiðin á sveitarstjórnarstigi
Ráðstefnan „Local Action. Global Shift – Living the Sustainable Development Goals“ verður haldin 6.-8. maí í Innsbruck, Austurríki. 
Ráðstefnan verður helguð innleiðingu heimsmarkmiðanna á sveitarstjórnarstigi. Í boði verða áhugaverðar framsögur og umræður, nýstárlegar vinnustofur, t.d. „Policy hack“ og vettvangsferðir til sveitarfélaga í nágrenni Innsbruck og fyrirtækja þeirra til að kynnast sjálfbærum lausnum austurrískra sveitarfélaga. Nánari upplýsingar um dagskrá og annað: https://www.cemr2020.at/. Einnig er velkomið að hafa samband við Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins til að fá frekari upplýsingar


Fræðslufundur um Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Námskeið um Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fór fram á Grand hóteli í Reykjavík mánudaginn 3. febrúar sl.

Meðal frummælenda á fundinum var Rannveig Traustadóttir, prófessor við Háskóla Íslands, Sigurjón Unnar Sveinsson, lögmaður ÖBÍ og Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar. Einnig voru á fundinum sýnd mjög áhugaverð innslög frá notendum NPA á Íslandi þar sem þeir lýsa því hvernig NPA hefur breytt lífi þeirra.

Erindin voru tekin upp og má finna þau á síðu fundarins.

 

Twitter
Facebook
Website
Tíðindi 2. tbl. 13. febrúar 2020  
Copyright ©Samband íslenskra sveitarfélaga 2020, Allur réttur áskilinn. 


Netfang:
samband@samband.is

Viltu breyta eða segja upp áskrift?
afskrá af póstlista.

Sá sem upp elst iðjulaus, hann er næst því að deyja ærulaus.- Jón Vídalín