Drög að endurskoðaðri stefnu í byggðamálum birt í samráðsgátt
Hvítbók um byggðamál, drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára, hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar um hvítbókin en frestur til að skila umsögn er til og með 31. maí 2021.
Byggðaáætlun er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla skal lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.
|