Copy
Skoða póstinn í vafra

Umræða um viðkvæm álitamál í skólum

Samband íslenskra sveitarfélaga heldur tvo morgunverðarfundi í ár um skólamál. Fyrri fundurinn fer fram á Grand hóteli föstudaginn 27. apríl nk. kl. 08:00

Ýmsir erfiðleikar og áskoranir koma iðulega upp þegar rætt er í skólum um viðkvæm álitamál eins og sjálfsvíg og einelti eða hræðileg og óskiljanleg hryðjuverk. Slík umræða vekur jafnframt upp spurningar um hvort kennarar og annað skólastarfsfólk eigi að leiða slíka umræðu og þá hvernig?

Hópur skólafólks sótti að beiðni menntamálaráðuneytis vinnubúðir sem haldnar voru í Útey í Noregi um viðkvæm álitamál í skólum ásamt leiðum til að takast á við þau á faglegan hátt með nemendum. Á þessum fyrri fundi sambandsins um skólamál verða þessar áskoranir til umfjöllunar í íslensku skólasamhengi í samstarfi við hópinn sem fór til Úteyjar og fundargestir fá tækifæri til að spreyta sig á verkefnum

Nánari upplýsingar og skráning

Aukin áhersla á umbætur í opinberri starfsemi

Nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir árin 2019-2023 var undirritað í dag af Halldóri Halldórssyni, formanni, og Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og hins vegar af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurði Inga Jónssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Athygli vakti að nýjungar og umbætur í opinberri starfsemi hafa bæst við þau sameiginlegu verkefni sem ríki og sveitarfélög vinna saman að skv. samkomulaginu. Í því felst m.a. aukin uppbygging á miðlægu þjónustugáttinni á island.is og uppbygging stafrænna innviða fyrir opinbera þjónustu og bætta samvirkni upplýsingatæknikerfa.

Nánar

Aldursdreifing eftir sveitarfélögum

Hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur uppfært líkan fyrir myndræna aldursdreifingu eftir sveitarfélögum árin 1998 og 2018. Dreifing er sýnd með svonefndum aldurspíramídum eftir kyni á sitt hvoru árinu eða 1998 annars vegar og 2018 hins vegar. Á myndinni hér að ofan eru tvö dæmi. Myndin til vinstri er af aldursdreifingu Reykvíkinga en sú sem er til hægri sýnir aldursdreifingu Kópavogsbúa. Lituðu fletirnir eru fyrir árið 2018 en svörtu útlínurnar sýna stöðuna eins og hún var árið 1998. Þá stendur blái liturinn fyrir karla og sá rauði fyrir konur.

Nánar

Óskað eftir tilnefningum til nýsköpunarverðlauna

Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018 verða afhent á ráðstefnu um nýsköpun föstudaginn 8. júní 2018. Yfirskrift verðlaunanna í ár er „Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“.

Nýsköpun í opinberum rekstri má skilgreina sem verulegar breytingar á skipulagi, þjónustu, vöru eða samskiptaleiðum. Ávallt er um að ræða nýjung sem getur verið sköpuð á staðnum, innblásin af verkefni annars staðar frá eða yfirfærð beint frá öðrum stað. Sameiginlegt öllum nýsköpunarverkefnum er að þau skapa virði sem getur t.d. verið í formi aukinna gæða, skilvirkni, starfsánægju eða aukinnar aðkomu almennings.

Nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu eru samstarfsverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Sveitarfélög og stofnanir geta tilnefnt eitt eða fleiri verkefni. Frestur er til 4. maí nk. og skal tilnefningum skilað í umsóknakerfi Rannís. Tilnefningar sem berast verða birtar á vef Stjórnarráðsins.

Nánar

Frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn  um frumvarp til  laga um lögheimili og aðsetur. Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að búsetu- og aðsetursskráning einstaklinga sé rétt og að réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varða skráningu lögheimilis og aðseturs verði tryggt.

Á meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að hjónum verði heimilt að skrá sig í tvöfalda búsetu á sitthvoru lögheimilinu. Sama gildir ekki um sambúðarfólk enda er um að ræða annars konar sambúðarform og skráðri sambúð verður ekki að öllu leyti jafnað við hjúskap. Að áliti sambandsins er tilefni til að ræða hvort þessi undantekning frá meginreglu um sameiginlegt lögheimili hjóna sé of rúm. Mögulega færi betur á því að slík skráning væri skilyrt, þannig að hún gildi tímabundið og að tilgreindar ástæður séu til staðar, s.s. vegna atvinnu.

Þess má svo geta að ákvæði, sem kynnt var í drögum að frumvarpinu og heimiluðu skráningu lögheimilis í frístundabyggð eða iðnaðar- og atvinnuhúsnæði, voru tekin út úr frumvarpinu í kjölfar athugasemda frá sveitarfélögum og sambandinu.

Nánar

Mannréttindi og stjórnsýsla sveitarfélaga

Vorþing sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins fór fram 27. til 28. mars sl. í Evrópuráðshöllinni í Strassborg. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var mannréttindamiðuð stjórnsýsla og ræddu þinggestir samþættingu mannréttinda við alla starfsemi sveitarfélaga. Kom m.a. fram að mörg dæmi eru um slíka samþættingu á sveitarstjórnarstigi án mikils tilkostnaðar. Segir í ályktun þingsins um málið, að gefnar verði út handbækur um mannréttindi á sveitarstjórnarstigi með umfjöllun um fyrirmyndarverkefni evrópskra borga á þessu sviði. Þá voru málefni fylgdarlausra flóttabarna einnig á dagskrá, en meira en ein milljón barna hefur leitað ásjár í Evrópuráðsríkjum frá árinu 2015. Að mati þingsins er afar brýnt að þeim verði tryggð viðeigandi vernd og aðstoð. 

Að Íslands hálfu sóttu þingið Halldór Halldórsson, formaður sendinefndarinnar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Anna Gunnhildur Ingvarsdóttir, bæjarfulltrúi Fljótsdalshéraði , Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir ungmennafulltrúi og Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, ritari sendinefndarinnar. 

Nánar

Vernd og nýting á sjálfbærum grunni

Hrífandi, félag um náttúrumenningu, stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um verndarsvæði og þróun byggðar, í Veröld, húsi Vigdísar þann 27. arpíl nk. Víða erlendis ná verndarsvæði yfir byggðir og staði þar sem margvísleg starfsemi fer fram, segir m.a. í kynningu ráðstefnunnar, sem haldin er í samstarfi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Með því að nálgast samspil verndar og nýtingar með jafnvægi og sjálfbærni að leiðarljósi megi finna áhugaverðar lausnir sem tryggja vernd samhliða hagnýtingu náttúrugæða. Ráðstefnunni sé þannig ætlað að vera innlegg í opinbera umræðu sem allt of oft snýst um byggðaþróun eða verndaraðgerðir en sjaldnast hvort tveggja í senn.

Nánar

Náum áttum samstarfshópurinn verður með morgunverðarfund 25. apríl nk. um rétt barna í opinberri umfjöllun. Fundurinn er á Grand hóteli og stendur frá kl. 08:15 til 10:00. Með því að smella á myndina má nálgast skráningarform og hlekk á upptökur frá fundinum.

Samtök iðnaðarins og Háskólinn í Reykjavík efna til vorhátíðar GERT með yfirskriftinni Framtíðarumhverfi grunnskólans. Fundurinn fer fram mánudaginn 30. apríl kl. 15.00-17.00 í HR í stofu M104. GERT stendur sem kunnugt er fyrir Grunnmenntun Efld í Raunvísindum og Tækni.

Copyright © 7_apríl_2018
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp