Copy
Skoða póstinn í vafra

Lágt hlutfall kvenna til skammar

Power2Her, skýrsla CEMR, Evrópusamtaka sveitarfélaga, um stöðu kvenna í stjórnmálum leiðir í ljós, að konur voru einungis 31% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi og 18% af borgar- og bæjarstjórum í Evrópu á árinu 2018.

Skýrslan er liður í vitundarátakinu Power2Her - Women in politics sem hefst formlega í dag, á alþjóðabaráttudegi kvenna. Á kynningu átaksins sagði Stefano Bonaccini, forseti Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, að þetta lága hlutfall kvenna væri til skammar fyrir Evrópu og var ekkert að skafa af vonbrigðum sínum með stöðuna í  jafnréttismálum kynjanna.

Þátttaka kvenna á Íslandi í sveitarstjórnarmálum er góð í samanburði við önnur Evrópulönd og er Ísland  í efsta sæti þegar kemur að kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi með 47%. Þegar litið er til framkvæmdastjóra sveitarfélaga, þá hallar þó enn talsvert á konur, en af 72 sveitarstjórnum og oddvitum eru aðeins 26 konur eða ríflega þriðjungur. Þá eru einungis 38% alþingismanna konur og gerir þetta lága hlutfall að verkum að Ísland nær í Evrópusamanburði ekki inn á þann topp 5-lista.

Nánar

Sveitarfélögin og loftslagsmál

Loftslagsmálin standa fyrir margar af stærstu áskorunum samtímans. Með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018-2030, hefur ríkisstjórnin markað fyrstu skrefin í átt að aukinni sjálfbærni, en hvar og hvernig koma sveitarfélögin að málum?

Við ætlum að hefja samtal sveitarfélaga um loftslagsmál með sérstöku málþingi sem fram fer fimmtudaginn 28. mars nk. á Natura Reykjavík hóteli. Um yfirgripsmikið málþing er að ræða þar sem fjallað verður um stöðu loftslagsmála hér á landi á breiðum grunni.

Framsögumenn eru úr hópi fræðimanna, stjórnenda eða stjórnmálamanna, allt eftir viðfangsefni hverju sinni.  Málþingið stendur daglangt, hefst klukkan tíu árdegis og lýkur klukkan fjögur síðdegis. Málþingsstjórar eru Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Dagskrá málþingsins og skráning

Aðgerðir í nýliðun kennara

Launað starfsnám og námsstyrkir eru á meðal þeirra aðgerða stjórnvalda, sem ætlað er að fjölga nýliðum og sporna gegn brotthvarfi í kennarastétt. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í dag umfangsmiklar aðgerðir í menntamálum sem koma til framkvæmda þegar í haust.

Þá mun starfandi kennurum einnig bjóðast styrkir til náms í starfstengdri leiðsögn, en leiðsagnarkennurum er m.a. ætlað að sporna gegn brotthvarfi hjá nýútskrifuðum kennurum úr starfi, sem hefur verið talsvert hjá ungkennurum á þremur fyrstu starfsárum þeirra. 

Aðgerðirnar eru byggðar á tillögum sem unnar voru í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólans á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins.

Nánar

Lagt til að keðjuábyrgð verði leidd í lög um opinber innkaup

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til að heimild til keðjuábyrgðar verði gerð að skyldu í lögum um opinber innkaup. Þá telur sambandið mikilvægt að hugað verði að stöðu bæði ríkis og sveitarfélaga, fari svo að Ríkiskaup verði lögð niður.
 

Í umsögn sambandsins vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um opinber innkaup, er hvatt til þess að heimildarákvæði um kveðjuábyrgð verði gert að lagaskyldu. Er það m.a. gert með vísan í skýrslu samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði, sem gefin var út í janúar sl. 


Einnig er bent á að afar mikilvægt sé, að sú starfseining eða ríkisaðili sem taki við af Ríkiskaupum þjóni bæði ríki og sveitarfélögum  á núverandi starfssviði stofnunarinnar, fari svo að hún verði lögð niður. 

Nánar

Mikill HM-áhugi hjá sveitarfélögunum

Fullt var út úr dyrum á kynningarfundi á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni, sem Samband íslenskra sveitarfélaga gekkst nýlega fyrir. Sveitarstjórnarfólk víðs vegar að af landinu kom saman og ræddi heimsmarkmiðin út frá sjónarhóli sveitarfélaga, tilgang þeirra og notagildi í því breiða samhengi sem sjálfbær þróun stendur fyrir.

Fundurinn hófst með ávarpi sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti og fylgdi ráðherra með skemmtilegum hætti eftir hvatningarbréfi sínu sem sent var sveitarfélögum nokkru fyrir fundinn. Lokaorð fundarins átti svo Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins.

Í framsögu sinni fjallaði Aldís um heimsmarkmiðin og hvernig nálgast megi þau sem verkefni sveitarstjórnarstigsins. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur áætlað að framkvæmd heimsmarkmiðanna komi að 2/3 hluta til kasta sveitarfélaga og sagði Aldís ljóst að sveitarfélög hefðu hér lykilhlutverki að gegna. Lagði formaður í ljósi þess til að myndaður verði umræðu- og samstarfsvettvangur innan sambandsins, sem fái m.a. það hlutverk að marka sveitarfélögum stefnu varðandi innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Upptökur af fundinum

Evrópsku stjórnsýsluverðlaunin

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til evrópsku stjórnsýsluverðlaunanna European Public Sector Award, EPSA 2019, en þessi eftirsóttu verðlaun eru veitt annað hvert ár fyrir framúrskarandi nýjungar í opinberri þjónustu og stefnumótun. Yfirskrift verðlaunanna er að þessu sinni: nýjar lausnir við flóknum viðfangsefnum - opinber þjónusta við allra hæfi, sjálfbær og framsýn;  New Solutions to complex challanges - A public sector citizen-centric, sustainable and fit for the future.

Íslensk stjórnsýsla hefur hlotið ýmis EPSA verðalaun, nú síðast viðurkenningu sem Hafnarfjarðarkaupstaður hlaut 2017 vegna frumkvöðlaverkefnisins Geitungarnir, atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk.

Nánar
Copyright © 3_mars_2019
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp